Bátsferð í eyjuna Vigur

Eyjan Vigur er einatt kölluð perla Ísafjarðardjúps, og ekki að ástæðulausu. Iðandi fuglalíf og einstök náttúrufegurð einkenna Vigur, og ábúendur eyjunnar taka vel á móti gestum með kaffi og heimabökuðu. Daglegar ferðir eru í Vigur yfir sumartímann.

Dagsferðin á Hesteyri er fullkomin fyrir þá sem vilja fá smjörþefinn af Hornstrandafriðlandinu án þess að klæða sig í goretex og vera með primus. Á sumrin er boðið upp á  leiðsagða ferð um Hesteyri á miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum. Þar er fræðst um sögu og landhætti þessa merkilega eyðiþorps. Kyrrðin á Hesteyri er ferðarinnar virði ein og sér, en rúsínan í pylsuendanum er að ferðin endar í kaffi og heimabökuðum pönnukökum í læknishúsinu. Um klukkutíma sigling er frá Ísafirði að Hesteyri.

Nánari upplýsingar fást hjá Vesturferðum.